Samfélagsmiðlar

Fólk bíður með að bóka þangað til öruggt er að það kemst af stað

„Á árunum 2016 til 2019 var verðþróunin í ferðaþjónustunni frekar brött í tengslum við aukna eftirspurn. Og að mínu mati þá stóðu gæðin ekki alltaf undir verðlaginu. Fyrir okkur sem þýska ferðaskrifstofu þá var þessi þróun áskorun þar sem markaðurinn okkar er mjög viðkvæmur fyrir verðbreytingum," segir Moritz Mohs, svæðisstjóri Wikinger Reisen.

Þýska ferðaskrifstofan Wikinger Reisen hefur í hálfa öld boðið upp á gönguferðir um Ísland og á þarsíðasta ári komu 2.250 ferðamenn á þeirra vegum hingað til lands. Moritz Mohs, svæðisstjóri Wikinger Reisen, bindur vonir við að það rætist úr sumrinu þegar á líður. Hann bendir þó á að með hverri vikunni sem líður þá minnki líkurnar á að það gangi eftir.

Hann segir fjölda ferðamanna á Íslandi síðustu ár ekki hafa verið stórt vandamál fyrir viðskiptavini Wikinger Reisen. Öðru máli gegnir um verðlag hér á landi og sveiflur á gengi krónunnar.

„Fyrri helmingur sumarsins er farinn nú þegar. Við gerum okkur þó vonir um töluverð umsvif eftir miðjan júlí. Hver vika sem líður án þess að við vitum hvenær fallið verði frá kröfu um 5 til 6 daga sóttkví, fyrir óbólusetta ferðamenn, dregur þó úr líkunum á að það gangi eftir. Fólk bíður með að bóka ferðir þar til að það er alveg öruggt með að komast af stað. Um leið og slakað verður á núverandi takmörkunum þá munum við sjá eftirspurnina aukast,“ útskýrir Mohs.

Mannmergðin ekki vandamál í gönguferðum

Þýski markaðurinn hefur lengi verið mjög mikilvægur fyrir íslenska ferðaþjónustu og sérstaklega yfir sumarmánuðina. Spurður hvort umræða um massatúrisma á Íslandi í þýskum fjölmiðlum hafi skemmt fyrir þá svarar Mohs því til að viðskiptavinir Wikinger Reisen hafi í sjálfu sér ekki fundið mikið fyrir mannmergð.

„Sumarið er og verður aðalferðatímabilið og mikill fjöldi ferðamanna á Íslandi á þeim tíma var aðeins í umræðunni í fjölmiðlum. Mögulegir viðskiptavinir spurðust því fyrir um stöðuna. En við höfum aðallega upplifað þetta sem vandamál á Reykjavíkursvæðinu, á suðvesturhorninu og við suðurströndina. Í öðrum landshlutum voru áhrifin ekki neikvæð. Ferðirnar okkar eru átta til fimmtán daga og í mörgum tilfellum fer fólk víða um eyjuna. Við stoppum auðvitað við þekktustu og vinsælustu áfangastaðina en fókusinn er á göngur í tvo til sjö klukkutíma. Mannmergð er því ekkert vandamál um leið og þú byrjar að ganga frá bílastæðinu þannig að við finnum ekki fyrir þessu.”

Gengi krónunnar veldur sveiflum í afkomu

Vinsældir Íslands meðal ferðamanna höfðu þó sín áhrif því verðlagið hér á landi varð til þess að ferðalög til Íslands urðu dýrari.

„Á árunum 2016 til 2019 var verðþróunin í ferðaþjónustunni frekar brött í tengslum við aukna eftirspurn og að mínu mati þá stóðu gæðin ekki alltaf undir verðlaginu. Fyrir okkur sem þýska ferðaskrifstofu þá var þessi þróun áskorun þar sem markaðurinn okkar er mjög viðkvæmur fyrir verðbreytingum. Mun meira en tilfellið er á stórum mörkuðum eins og þeim bandaríska og í Asíu,“ útskýrir Mohs.

Spurður hvort sveiflur í gengi íslensku krónunnar komi sér illa þá viðurkennir Mohs að gengisþróunin geti verið erfið fyrir ferðaskrifstofur sem þurfi að gefa út verð eitt ár fram í tímann. Einnig leyfi þýsk lög ekki verðbreytingar eftir á nema að litlu leyti.

„Við höfum hins vegar verið með ferðir til Íslands í fimmtíu ár svo þetta er í lagi, sum árin töpum við smá en svo koma önnur þar sem er afgangur.“

Markaður fyrir vetrarferðir að aukast

Sem fyrr segir þá hafa Þjóðverjar aðallega sótt í Íslandsferðir yfir sumarmánuðina en þýskum ferðamönnum hér á landi hafði farið fjölgandi yfir vetrarmánuðina.

Sú þróun endurspeglaðist í tölum Wikinger Reisen segir Mohs. Hann nefnir sem dæmi að árið 2012 komu innan við tvö prósent af viðskiptavinum ferðaskrifstofunnar til Íslands yfir vetrarmánuðina. Árið 2019 var hlutfallið fimmtán prósent.

„Markaðurinn fyrir vetrarferðir til Íslands er því klárlega til staðar,“ segir Mohs að lokum.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …