Forðast lofthelgi Hvítrússa

Leiðin sem þota Ryanair fór í gær frá Aþenu. MYND: FLIGHTRADAR24

Það var 171 farþegi í þotu Ryanair sem tók á loft frá Aþenu í Grikklandi í gærdag og tók stefnuna á Vilnius í Litháen. Þotan beygði hins vegar skyndilega af leið og lenti í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Þegar þangað var komið var blaðamaðurinn og stjórnarandstæðingurinn Roman Protasevich handtekinn.

Stuttu síðar fékk flugvélin að halda sína leið og lenti í Vilnius í gærkvöld. Frá borði stigu þó nokkuð færri farþegar en lögðu í hann frá höfuðborg Grikklands fyrr um daginn. Því samkvæmt forstjóra Ryanair þá voru fulltrúar leyniþjónustu Hvíta-Rússlands meðal farþega í þotunni. Þeir fylgdu Protasevich út úr vélinni á flugvellinum í Minsk.

Ráðamenn víða hafa gangrýnt þessa aðgerð Hvítrússa og líkt henni við flugrán. Og nú í dag hafa flugfélög beint þotum sínum framhjá lofthelgi Hvíta-Rússlands.

Evrópusambandið skoðar jafnframt refsiaðgerðir vegna málsins, þar á meðal bann við flugferðum þjóðarflugfélags Hvíta-Rússlands til evrópskra áfangastaða. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.