Hafa þegar ráðið 112 manns

MYND: BLÁA LÓNIÐ

Starfsemi Bláa Lónsins hefur að mestu legið niðri frá 8. október í fyrra vegna Covid-19 en frá og með deginum í dag opnar fyrirtækið aftur öll upplifunarsvæði sín. Þar er vísað til baðlónsins sjálfs, Retreat Spa, veitingastaða, tveggja hótela, rannsóknar- og þróunarseturs auk verslunar.

Í tilkynningu segir að Bláa Lónið hafi á undanförnum vikum ráðið til starfa 112 nýja starfsmenn og gert er ráð fyrir að fjölga þeim enn frekar á komandi vikum og mánuðum.

Samhliða opnuninni kynnir félagið nú Sumarkort Bláa Lónsins sem veitir einstaklingum og fjölskyldum aðgang og tækifæri til að njóta alls þess sem Bláa Lónið hefur upp á að bjóða. Kortið veitir ótakmarkaðan aðgang að Bláa Lóninu í allt sumar og út september.

„Við hjá Bláa Lóninu horfum björtum augum fram á við og fögnum íslensku ferðasumri á sama tíma og ferðaþjónustan er almennt að taka við sér. Eftir fordæmalausan vetur er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að huga að líkama og sál og hafa það reglulega notalegt í allt sumar. Með Sumarkorti Bláa Lónsins erum við að leggja okkar að mörkum til að svo
megi verða,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, í tilkynningu.