Heimila samruna Eldeyjar og Kynnisferða

Fjárfestingasjóðurinn Eldey hefur síðustu ár fjárfest í ferðaþjónustufyrirtækjum sem sérhæfa sig í afþreyingu fyrir ferðamenn. Í maí í fyrra var hluthöfum Eldeyjar kynnt áform um að sameina eignarhluti sjóðsins við Kynnisferðir, eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Samkomulag um þessa sameiningu var hins vegar fyrst undirritað í lok síðasta árs og þá með fyrirvara um samþykki yfirvalda.

Það fékkst fyrr í dag þegar Samkeppniseftirlitið gaf grænt ljóst á samrunann.

„Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni og leiði þar af ekki til myndunar á markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir hann ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti,“ segir í úrskurðinum.