Hvetja landsmenn til að sniðganga Play

TÖLVUTEIKNING: PLAY

Kjarasamningur flugfélagsins Play við Íslenska flugstéttafélagið var á dagskrá fundar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands seinnipartinn í dag. Í framhaldinu sendi miðstjórnin frá sér ályktun þar sem þess er krafist að Play gangi til kjaraviðræðna við Flugfreyjufélag Íslands.

Samtök atvinnulífsins, sem Play er hluti af, eru einnig hvött til að beita sér fyrir raunverulegum kjarasamningi enda telur ASÍ vafa vera um lögmæti þess sem samnings sem Play skilaði nýverið til ríkissáttasemjara.

„Alþýðusamband Íslands hvetur einnig landsmenn til að sniðganga félagið þangað til það hefur sýnt að það ætli að vera hluti af íslenskum vinnumarkaði og bjóða starfsfólki sínu kaup og kjör sem gilda hér á landi,“ segir jafnframt í ályktun miðstjórnar ASÍ. Þar eru lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar einnig hvattir til að sniðganga félagið en lífeyrissjóðurinn Birta er í dag þriðji stærsti hluthafinn í Play.

Í ályktun ASÍ segir einnig að lægstu laun flugfreyja og -þjóna hjá Play verði 266.500 krónur á meðan þau eru 307 þúsund krónur hjá Icelandair. Einnig eru fleiri flugtímar innifaldir í grunnlaunum Play og greiddir yfirvinnutímar færri. Greiðslur í lífeyrissjóði og dagpeningar séu lægri og eins bifreiðarstyrkur og desemberuppbót.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma hins vegar að lægstu mánaðarlaun flugfreyja hjá Play verði hærri en í boði eru hjá Icelandair eða 362 þúsund krónur.

Líkt og fram kom hér á síðum Túrista nýverið þá voru grunnlaun áhafna Play hækkuð í tengslum við hlutafjárútboð félagsins í apríl.