Íslandsflug Delta aldrei verið umsvifameira

Boeing 757 þota Delta kemur inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli í byrjun maí. MYND: DELTA AIR LINES

Fyrsta ferð Delta Air Lines frá Boston lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun en í byrjun maí tók félagið upp þráðinn í flugi sínu hingað frá New York. Í næstu viku hefst svo á ný áætlunarflug bandaríska flugfélagsins hingað frá Minneapolis.

Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem þotur Delta fljúga hingað frá Boston og verður flogið daglega frá þessum þremur áfangastöðum til Íslands í sumar og fram á haust.

Í tilkynningu frá Delta segir að gríðarmikill áhugi sé á Íslandi hjá bólusettum bandarískum ferðalöngum og þetta ár verði það umsvifamesta hjá félaginu í farþegaflugi milli Bandaríkjanna og Íslands. Vegna mikillar eftirspurnar verða stærri 226 sæta Boeing 767 vélar notaðar í hluta flugferðanna í sumar.

„Áhrifin af því að Ísland er fyrsta Evrópulandið sem opnaði á ný fyrir bandarískum ferðamönnum sýnir sig í aukinni eftirspurn í samanburði við 2019,“ segir Amy Martin, framkvæmdastjóri alþjóðaleiðakerfis Delta.

„Eftir heilt ár af takmörkuðum ferðamöguleikum eru Bandaríkjamenn æstir í að upplifa ný ævintýri. Með tilkomu daglegra ferða frá Boston í viðbót við New York koma yfir 350 ferðamenn daglega til Íslands með Delta til að upplifa Ísland með sinni fjölbreyttu og áhugaverðu náttúru,“ bætir Martin við.

Með tilkomu Boston sem áfangastaðar, auk New York og Minneapolis, geta ferðamenn frá 118 bandarískum borgum nýtt sér tengiflug Delta til að komast hingað.

„Koma bólusettra ferðamanna frá Bandaríkjunum hefur keyrt íslenska ferðaþjónustu í gang af miklum krafti. Mikill áhugi Bandaríkjamanna á að koma til Íslands skiptir miklu fyrir efnahagslífið, enda er ferðaþjónustan mikilvirkur þátttakandi í vexti og þróun hagkerfisins. Við hlökkum mikið til þess að allt fari á fullan snúning,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um jómfrúarferð Delta til Íslands frá Boston.