Kalla eftir breytingum í rekstrarumhverfi ferðaþjónustu og stjórnsýslu

Ferðamenn við Námaskarð. Mynd: Iceland.is og Katla DMI.

Til að styðja við öfluga endurreisn íslensk efnahagslífs, þar sem ferðþjónustan er í lykilhlutverki, þá hafa Samtök ferðaþjónustunnar gefið út Vegvísi um viðspyrnu ferðaþjónustu til 2025.

Þar eru dregnar saman óskir samtakanna um starfsumhverfi atvinnugreinarinnar á næsta kjörtímabili en kosið verður til Alþingis nú í haust.

Í vegvísinum er í fyrsta lagi horft til að rekstrarumhverfis greinarinnar og lagt til að ýmiskonar lækkanir á sköttum og gjöldum, t.d. að virðisaukaskattur á greinina verði lækkaður úr ellefu í sjö prósent og gistináttaskattur afnumin.

Einnig er óskað eftir að ferðaþjónustunni verði hjálpað við að vinna úr þeim skuldavanda sem greinin er í eftir nær algjört tekjuleysi frá því að heimsfaraldurinn hófst í mars í fyrra.

Samtök ferðaþjónustunnar gera það einnig að tillögu sinni að starfsemi Ferðamálastofu, sem lykilstjórnsýslustofnunar atvinnugreinarinnar, verði efld og framlag ríkisins til neytendamarkaðssetningar Íslandsstofu á ferðaþjónustu erlendis verði aukið.

Tilllögurnar eru fjölmargar til viðbótar og finna má þær á sérstöku vefsvæði Samtaka ferðaþjónustunnar.