Kórónuveirupassi ESB verður að veruleika

MYND: SCHIPHOL

Eftir stífa samningalotu nú í vikunni þá náðu aðildarríki Evrópusambandsins loksins samkomulagi í gærkvöld um útfærslu á boðuðum kórónuveirupassa sambandsins. Sá verður hins vegar ekki tilbúinn nú í sumarbyrjun eins og upphaflega var stefnt að.

Frá og með 1. júlí er þó vonast til að Evrópubúar geti hlaðið þessu skilríkjum niður í símana sína og þannig farið með einfaldari hætti á milli landa.

Í þessum rafrænum pössum verður að finna upplýsingar um hvort viðkomandi hafi verið bólusettur eða hafi veikst af Covid-19. Einnig verða í skilríkjunum gögn sem tengjast nýlegum smitprófunum.

Innan ESB hefur ekki verið samstaða um hvort passinn eigi að koma alfarið í stað smitprófanna við landamæri eða ekki. Og niðurstaða samningalotu vikunnar er einskonar millileið. Ríki Evrópusambandsins mega áfram halda í eigin sóttvarnaraðgerðir við landamæri en geta aðeins skikkað fólk í sóttkví ef smitum fjölgar á nýjan leik. Og þau lönd sem kjósa að innleiða strangari reglur verða að tilkynna þær með að lágmarki tveggja sólarhringa fyrirvara.

Þar með er engin trygging fyrir því að fólk sem ferðast milli ríkja ESB og EES í sumar þurfi ekki í sóttkví við komuna til annars lands eða þegar haldið er heim á nýjan leik.

Hluti af samkomulagi gærdagsins snýr svo að niðurgreiðslum á smitprófunum en kostnaður við þau vegur þungt í heildarferðakostnaði fólks þessa dagana. ESB ætlar að leggja fram 100 milljónir evra, um 15 milljarða kr., í niðurgreiðslurnar.