Munurinn á tösku- og sætisgjöldum Icelandair og Play

kef taska 860
Það þarf að borga aukalega fyrir stórar töskur hjá bæði Icelandair og Play. MYND: ISAVIA

Nú orðið þurfa farþegar sem kaupa ódýrustu fargjöldin að borga aukalega fyrir innritaðan farangur og val á sætum. Skiptir þá engu hvers konar flugfélagi ferðast er með. Icelandair hefur þannig innheimt töskugjöld af þeim sem kaupa Economy Light flugmiða allt frá haustinu 2017.

Þar á bæ fylgir handfarangur þó með í kaupunum en hjá Play, sem hóf farmiðasölu í morgun, verður að borga undir allar töskur sem ekki komast undir sætin.

Og hjá Play er sú leið farin að setja saman handfarangursgjald og greiðslu fyrir að komast meðal fyrstu farþega um borð. Þess háttar kostar 2.700 til 3.700 krónur og ræðst verðið af dagsetningu og áfangastað.

Þegar kemur að innrituðum farangri þá er Play ódýrari en Icelandair. Hjá því síðarnefnda kostar taskan nefnilega 5.280 kr. per fluglegg innan Evrópu. Töskugjaldið hjá Play er á bilinu 3.400 til 4.600 krónur. Þó ber að hafa í huga að hámarksþyngding er 23 kíló hjá Icelandair en 20 kíló hjá Play.

Farþegar sem vilja ákveðið sæti um borð borga svo á bilinu 1.400 til 3.200 kr. fyrir að taka frá pláss í flugi með Icelandair. Hjá Play kostar sætisvalið 500 til 4.600 krónur samkvæmt verðskrá. Athygli vekur raunar að í bókunarvél Play þá getur gjaldið farið nokkrum krónum yfir hámarkið.

Og það eru reyndar vísbendingar um að það eigi eftir að fínstilla fleiri hluta heimasíðu Play sem opnaði í morgun.