Ósammála um aðkomu Flugfreyjufélagsins að fundi ASÍ og Play

Síðust daga hafa birst mismunandi útreikningar á launum og kjörum flugfreyja og -þjóna hjá Play. ASÍ telur launin vera lægri en stjórnendur flugfélagsins halda fram.

Það var seinnipartinn á miðvikudag sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands hvatti landsmenn til að sniðganga flugfélagið Play vegna kjarasamnings fyrirtækisins við Íslenska flugstéttafélagið. Nokkrum klukkustundum síðar sendi Play frá tilkynningu þar sem ASÍ var sakað um annarlegan áróður með yfirlýsingu sinni.

Deilendur hafa í framhaldinu sent frá sér fleiri tilkynningar og gagnrýnt málatilbúnað hvors annars í fjölmiðlum.

Það hefur hins vegar ekki tekist að fá forsvarsfólk Play og ASÍ til að setjast niður og ræða stöðuna. Ástæðan er sú að ekki ríkir samstaða um aðkomu Flugfreyjufélagsins að þess háttar fundi.

„Við óskuðum eftir fundi með Play en þeir kröfðust þess að ráða því hverjir sætu fundinn. Það er ekki í boði og eðlilega vildum við hafa okkar helstu sérfræðinga með sem eru í Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ). Ég hefði heldur aldrei lýst yfir trúnaði um efni fundarins gagnvart FFÍ,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í svari til Túrista um þennan hluta deilunnar.

Málið horfir hins vegar öðruvísi við stjórnendum Play sem segja að þeir telji óeðlilegt að fulltrúi Flugfreyjufélagsins mæti á fundi hjá flugfélaginu þar sem ekkert samningssamband sé milli þess og Play. FFÍ eigi því enga aðild að fundinum að þeirra mati.

„Play hefur boðið Drífu og lögfræðingi ASÍ að hitta sig síðan um mitt síðasta sumar. Sérfræðingar hafa þegar staðfest að kjarasamningur Play er í samræmi við kjör á íslenskum vinnumarkaði í tengslum við áreiðanleikakannanir vegna hlutafjárútboðs félagsins. Að fá sérfræðing FFÍ, sem er félag innan ASÍ og á í samkeppni við annað stéttarfélag utan þess, á fund með Play, sem hefur samið við stéttarfélagið utan ASÍ, er í hæsta máta óeðlilegt og auðvitað aðför að Íslenska flugstéttafélaginu. ASÍ hefur nýtt þetta sem fyrirslátt að okkar mati enda eru líkur á að það vaki ekkert annað fyrir ASÍ en að þvinga Play til samninga við Flugfreyjufélagið. ASÍ hefur krafist þess að fá staðfestingu á kaupum og kjörum, það hefur ekki staðið á Play að veita þær upplýsingar á fundi sem Drífu hefur staðið til boða síðan um mitt síðasta sumar. Þetta getur Halldór Benjamín [Þorbergsson], framkvæmdastjóri SA, staðfest,“ segir í svari Play við fyrirspurn Túrista.