Ríkasti Norðmaðurinn orðinn stærsti hluthafinn í Norwegian

Norwegian hefur verið í greiðslustöðvun í allan vetur en nú að loknu hlutafjárútboði er ætlunin að fara úr því skjóli. MYND: NORWEGIAN

Nú er enn einu hlutafjárútboðinu í Norwegian lokið og það var töluverð umframeftirspurn eftir bréfunum. Og af þeim sem tóku þátt þá var það norski skipakóngurinn John Frederiksen sem var stórtækastur samkvæmt frétt Dagens Næringsliv.

Fjárfestingafélag í hans eigu lagði fram 875 milljónir norskra króna í útboðinu sem jafngildir 12,7 milljörðum íslenskra króna. Þar með fer Fredriksen fyrir 19,94 prósent hlut í þessu stærsta lágfargjaldaflugfélagi Norðurlanda.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fredriksen, sem oft er sagður ríkastur allra Norðmanna, setur fé í rekstur Norwegian.

Sumaráætlun Norwegian gerir ráð fyrir tveimur ferðum í viku til Íslands frá Ósló frá og með 1. júlí. Aftur á móti hefur norska félagið lagt niður starfsstöðvar sínar á Spáni og þar með býðst Íslendingum ekki lengur beint flug með Norwegian frá Keflavíkurflugvelli til spænskra áfangastaða.