Segir vinnubrögð ASÍ óskiljanleg

Birgir Jónsson er forstjóri Play. MYND: PLAY

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands sendi frá sér harðorða ályktun seinni partinn í dag þar sem landsmenn eru hvattir til að sniðganga Play vegna kjarasamnings flugfélagsins við Íslenska flugstéttafélagið. Samkvæmt útreikningum ASÍ þá kveður samningurinn á um lægri laun til flugfreyja og -þjóna en þekkist á íslenskum vinnumarkaði.

Spurður um viðbrögð við þessari ályktun ASÍ þá segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, að hann vísi henni algerlega til föðurhúsanna. „Við erum stolt og sátt við þann samning sem okkar starfsemi byggir á,“ bætir hann við.

Birgir tekur fram að ASÍ hafi ekki komið og hitt forsvarsfólk Play né leitað til Íslenska flugstéttafélagsins til að fá svör. Þess í stað sé öllu slegið upp í fjölmiðlum. „Óskiljanleg vinnubrögð,“ segir forstjórinn. 

Samkvæmt samanburði sem Viðskiptablaðið birti fyrr í dag, á lægstu launum flugfreyja Play og Icelandair, þá verða kjörin hjá því fyrrnefnda hærri. Öfugt við það sem fram kemur í útreikningum ASÍ.

Birgir segir aðspurður að hann hafi ekki séð samning Icelandair, sem Viðskiptablaðið vísar í, enda væri það óeðlilegt að hans mati. Hann segir þó að ef útreikningar blaðsins séu réttir þá sé það algjör hneysa að ASÍ ráðist með fyrrgreindum hætti að fyrirtæki sem sé að skapa hundruð nýrra starfa í íslenskri ferðaþjónustu.