Segja ASÍ fara með rangfærslur og hafna því að vera „gult stéttarfélag“

Kjarasamningurinn sem Play og Íslenska flugstéttafélagið undirrituðu er straumlínulagaður tímamótasamningur segir í yfirlýsingu stjórnar stéttarfélagsins.

TÖLVUTEIKNING FRÁ PLAY

Kjarasamningur Play við Íslenska flugstéttafélagið hefur verið í umræðunni síðustu daga eftir að ASÍ hvatti landsmenn til að sniðganga hið nýja flugfélag þar sem samningurinn kveði á um undirboð. Stjórnendur Play hafa harðlega mótmælt þessum ásökunum og bent á að launakjörin séu betri en ASÍ telur þau vera.

Í þessari deilu hefur ekkert heyrst frá Íslenska flugstéttafélaginu (ÍFF) en seinnipartinn í gær rauf stjórn þess þögnina. Í yfirlýsingu er „öllum þeim dylgjum og rangfærslum sem viðhafðar hafa verið af forystu ASÍ“ hafnað.

Stjórnin telur framgöngu ASÍ jafnframt vera ósanngjarna og ódrengilega. „Vegur þar þyngst að okkar mati fullyrðing forseta ASÍ um að lægstu laun flugliða séu undir lágmarkslaunum í landinu eða um 260 þúsund þegar staðreyndir hafa verið raktar um að þau séu um 352 þúsund, án vinnuframlags, í veikindum eða orlofi. Taka verður svo tillit til allra þátta og liða þegar reiknuð eru laun flugfólks,“ segir í yfirlýsingunni.

ÍFF byggir á grunni Íslenska flugmannafélagsins en það félag var stofnað haustið 2014 af flugmönnum Wow Air. Eftir gjaldþrot þess var ákveðið að opna félagið fyrir fleiri stéttum úr fluggeiranum.

Í aðdragana stofnunar Play óskaði ÍFF eftir kjarasamningi við flugfélagið.

„Allar samningsviðræður voru af hálfu fulltrúa sinna stétta. Flugmenn, sem áður höfðu samið fyrir hönd ÍFF við Wow Air, sömdu fyrir hönd flugmanna og fengu fyrrum flugliðar Wow Air sem áður voru í samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands og samstarfsnefnd, umboð ÍFF til að semja fyrir flugliða. Gerðir voru samþættir og straumlínulagaðir tímamótasamningar eftir helstu leikreglum markaðarins en með nýrri sameiginlegri framtíðarsýn,“ segir í yfirlýsingunni.

Forrysta ASÍ hefur ekki aðeins gagnrýnt launakjör kjarasamningi Play heldur einnig sagt að ÍFF beri þessi merki að vera „gult stéttarfélag“ sem horfi frekar til hagsmuna atvinnurekenda en launafólks. 

Stjórn ÍFF segir þessa ásökun vera særandi og móðgun við þá sem að félaginu standi.

„Samningar okkar eru gerðir í góðri trú eftir þeim leikreglum sem mótast hafa gegnum tímann til að skapa tækifæri fyrir félagsmenn og alls ekki til höfuðs annarra félaga eða starfsbræðra og -systra,“ tilkynningunni.

Túristi hefur síðustu daga óskað eftir upplýsingum frá ÍFF um hversu margar flugfreyjur og -þjónar samþykktu þær breytingar sem gerðar voru á kjarasamningnum í tengslum við hlutafjárútboð Play í síðasta mánuði. Ekki hafa fengist svör við þeirri spurningu.