Tekur örfáa daga að gera við MAX þotuna

Icelandair keypti samtals tólf MAX þotur af Boeing. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Icelandair tók eina af Boeing MAX þotum sínum úr rekstri um miðjan apríl í varúðarskyni eftir tilmæli frá flugvélaframleiðandanum og bandarískum flugmálayfirvöldum. Var þetta gert vegna galla í rafkerfi en samtals voru 106 MAX þotur teknar úr umferð á heimsvísu.

Nú hafa bandarísk flugmálayfirvöld samþykkt þær breytingar sem gera þarf á þotunum og samkvæmt svari frá Icelandair má gera ráð fyrir að viðgerðin taki örfáa daga. Ekki liggur þó fyrir hvenær hún verður framkvæmd en það ræðst af stöðu annarra viðhaldsverkefna hjá Icelandair.