Þóra sú þriðja sem fer frá Icelandair til Play

Þóra Eggertsdóttir, yfirmaður innanlandsflugs Icelandair, er nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins.

Samhliða störfum sínum hjá Icelandair hefur Þóra setið í stjórn lífeyrissjóðsins Birtu en sjóðurinn varð þriðji stærsti hluthafinn í Play að loknu hlutafjárútboði í síðasta mánuði. Þess ber þó að geta að Þóra vék af fundi stjórnarinnar þegar ákvörðun um nærri eins milljarðs króna fjárfestingu Birtu í Play var á dagskrá líkt og Túristi greindi frá.

Birta tók hins vegar ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair síðastliðið haust en var áður einn stærsti hluthafinn í flugfélaginu.

Þóra er þriðji starfsmaðurinn af aðalskrifstofu Icelandair samteypunnar sem ræður sig til starfa hjá Play. Áður hafa þeir Þórður Bjarnason og Daníel Snæbjörnsson farið sömu leið.

Play auglýsti nýverið eftir tveimur framkvæmdastjórum og nú hefur verið ráðið í báðar stöðunar. Þóra tekur við fjármálunum sem fyrr segir og Georg Haraldsson fer nú fyrir sölu- og markaðsmálum Play.