Þrír af hverjum tíu með pólskt vegabréf

MYND: ISAVIA

Við vopnaleitina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sýna farþegar vegabréf sín og þannig er haldið utan um hverjar þjóðar fólkið er sem flýgur frá landinu. Þessar upplýsingar eru svo grunnurinn að talningu Ferðamálastofu á erlendum ferðamönnum hér á landi og brottförum Íslendinga.

Útlendingur sem býr á Íslandi flokkast því í raun sem ferðamaður á meðan Íslendingar búsettur í útlöndum gerir það ekki.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar rýnt er í tölur Ferðamálastofu og sérstaklega nú í heimsfaraldrinum enda vísbendingar um að Pólverjar, búsettir hér á landi, vegi mjög þungt í talningunni.

Fyrstu fjóra mánuði ársins flugu nefnilega nærri átján þúsund útlendingar frá Íslandi. Þar af voru Pólverjarnir rúmlega fimm þúsund eða 30 prósent af heildinni. Engin önnur erlend þjóð hefur átt eins oft erindi í gegnum Leifsstöð nú í ár. Þjóðverjar hafa verið næst fjölmennastir því um tvö þúsund farþegar með þýskt vegabréf flugu héðan fyrstu fjóra mánuði ársins.

Aftur á móti keyptu Þjóðverjar tvöfalt fleiri gistinætur á íslenskum hótelum hér á landi en Pólverjar á tímabilinu janúar til mars í ár en tölur fyrir apríl liggja ekki fyrir. Pólsku farþegarnir á Keflavíkurflugvelli eru því mun ólíklegri en þeir þýsku til að tékka sig inn á hótel hér á landi.

Gistináttatölur gefa því skýrari mynd af hverjir eru ferðamenn og hverjir ekki. Og þær eru líka betur samanburðarhæfar við tölur annarra landa því víðast hvar út í heimi eru gistináttatölur nýttar sem mælikvarði á gang mála í ferðaþjónustu. Íslensku aðferðina er nefnilega ekki einfalt að heimfæra á lönd sem ekki eru eyríki.