Um 100 farþegar í fyrstu áætlunarferðinni til Tenerife

Icelandair flýgur nú á eigin vegum til spænsku eyjunnar.

Þotan sem nýtt var í fyrstu áæltunarferð Icelandair til Tenerife. MYND: SMBC AVIATION CAPITAL

Nú í morgun hófst áætlunarflug Icelandair til Tenerife og um borð voru um eitt hundrað farþegar samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. Í Boeing MAX flugvélinni, sem fór af stað í morgun, eru sæti fyrir 160 farþega.

Þotur Icelandair hafa lengi verið fastgestir á flugvellinum á suðurhluta Tenerife. Hingað til hafa ferðirnar þangað hins vegar verið fyrir íslenskar ferðaskrifstofur. Nú ætlar Icelandair hins vegar að freista gæfunnar með eigin ferðum til Tenerife líkt og WOW air gerði á sínum tíma.

Það félag hélt líka úti ferðum til Alicante. Icelandair ætlar ekki að hefja áætlunarflug þangað heldur halda sig við leiguflug til borgarinnar eins og fram kom í viðtali Túrista við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair.