10 dagar í jómfrúarferðina og þotan orðin rauð

Airbus A321neo þotan TF-AEW er komin í liti Play. Mynd: Facebook síða Play

Þær þrjár þotur sem flugfélagið Play hefur leigt voru áður í flugflota mexíkóska lágfargjaldaflugfélagsins Interjet. Þá voru þær málaðar hvítar og bláar en nú er fyrsta þotan orðin rauð og merkt Play. Frá þessu greinir flugfélagið á Facebook síðu sinni.

Þotan er með einkennisstafina TF-AEW og það er hún sem á að flytja farþega til Stansted flugvallar við London þann 24. júní í fyrstu áætlunarferð Play.

Hinar tvær þoturnar eru væntanlegar í júlí og þá fjölgar áfangastöðum flugfélagsins.