Áætlunarflug United Airlines til Keflavíkurflugvallar hafið

ÞOTA UNITED AIRLINES VIÐ FLUGSTÖÐ LEIFS EIRÍKSSONAR MYND: ISAVIA

Boeing 757 þota United Airlines lenti á Keflavíkurflugvelli nú í morgunsárið. Þar með er sumarvertíð bandaríska flugfélagsins hér á landi hafin en hún gerir ráð fyrir meiri umsvifum en áður.

Að þessu sinni munu þotur flugfélagsins nefnilega fljúga hingað frá bæði Newark flugvelli við New York og O’Hare við Chicago. Áður hafði United eingöngu boðið upp á Íslandsflug frá þeirri fyrrnefndu.

Icelandair er einnig með áætlunarflug til beggja þessara flugvalla en gerir reyndar ekki ráð fyrir að hefja flug til Newark fyrr en í lok júní mánaðar.