Bandaríkin eru ennþá lokuð fyrir ferðamönnum

Íslendingar geta ennþá ekki flogið til Bandaríkjanna nema þeir eigi þar heima. Mynd: Hector Arguello / Unsplash

Það eru sex áætlunarferðir til Bandaríkjanna á dagskrá Keflavíkurflugvallar í dag en það eru aðeins bólusettir íbúar Bandaríkjanna sem geta nýtt sér þessar ferðir.

Bandarísk landamæri eru nefnilega ennþá lokuð fyrir útlendingum og stjórnvöld þar í landi hafa ekki gefið út neinar yfirlýsingar um breytingar þar á. Öfugt við það sem skilja mátti á frétt Mbl.is fyrr í dag. Þar sagði að bólu­sett­ir farþegar geti nú ferðast héðan til Bandaríkjanna án tak­markanna í kjölfar breytts áhættumats Sóttvarnarstofnunnar Bandaríkjanna.

Í svari frá sendiráði Bandaríkjanna hér á landi, við fyrirspurn Túrista, segir að ferðabannið sem gilt hefur síðustu mánuði sé ennþá í gildi.