Blanda af íslenskum og erlendum gestum fyrstu vikuna

„Það hefur verið skemmtilega blandaður hópur af ferðamönnum sem hefur komið hingað fyrstu dagana. Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn, Íslendingar í bæjarferð utan af landi og flestir þeir erlendu eru á bílaleigubílum,“ segir Bragi Hinrik Magnússon, annar eigenda Hótels Hrauns, sem opnaði í Hafnarfirði í síðustu viku, nánar tilekið þann 17. júní.

Á hótelinu er 71 herbergi og þar er einnig veislusalur sem leigður er út fyrir mannfagnaði.

Meðeigandi Braga er Þór Bæring Ólafsson en þeir félagar hafa unnið í ferðaþjónustu í meira en tvo áratugi. Og það eru tækifæri til í að byggja upp meiri ferðamennsku í Hafnarfirði að þeirra mati.

„Hér í Hafnarfirði og á svæðinu í kring eru miklir möguleikar þessu tengdir og þetta verkefni gæti verið eitt skref í þá átt að auka fjölbreytni í atvinnulífinu hér,“ segir Bragi Hinrik.