Bretar fá ólíklega úr meiru að moða á næstunni

Stjórnendur Heathrow eru meðal þeirra sem nú þrýsta á bresk og bandarísk stjórnvöld um að leyfa fólki að ferðast án takmarkanna milli landanna tveggja. MYND: LONDON HEATROW

Nú eru aðeins ellefu lönd eftir á lista breskra stjórnvalda yfir þá áfangastaði sem Bretar geta farið til án þess að þurfa í tíu daga sóttkví við heimkomuna. Ísland er eitt þessara landa en Portúgal var tekið af listanum í síðustu viku.

Og það stefnir ekki í að listinn verði lengdur í bráð því breska ríkisstjórnin hefur engin áform um að bæta við löndum fyrr en seinna í sumar samkvæmt frétt The Telegraph í dag.

Þar er vísað í yfirlýsingar Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sem segir að nú verði að standa vörð um frelsi fólks innanlands.

Forráðamenn breskra og bandarískra flugfélaga og ferðaskrifstofa binda þó vonir við að opnað verði á samgöngur milli Bretlands og Bandaríkjanna fljótlega.

Í morgunþætti BBC4 í morgun áréttaði forstjóri Virgin Atlantic flugfélagsins að það væru engin rök fyrir því að Bandaríkjunum og löndum í karabíska hafinu væri haldið fyrir utan fyrrnefndan grænan lista breska stjórnvalda. Útbreiðsla Covid-19 í þessum löndum væri nefnilega á pari við það sem þekkist á þeim áfangastöðum sem Bretar mega ferðast til í dag án þess að fara í sóttkví.