Bretar gætu þurft að flýta sér heim

FRÁ ALBUFEIRA Í PORTÚGAL. MYND: DAN GOLD / UNSPLASH

Það voru tólf lönd, þar á meðal Ísland, á grænum lista breskra stjórnvalda sem kynntur var um miðjan maí. Bretar sem ferðast til þessara svokölluðu grænu landa sleppa við sóttkví við heimkomuna. Tíu daga einangrun bíður hins vegar þeirra sem hafa dvalið í appelsínugulu landi.

Portúgal var eina landið í suðurhluta Evrópu sem komst á græna listann og sala á ferðum þangað frá Bretalandi tók mikinn kipp. Sólþyrstir Bretar hafa streymt til Portúgals síðustu þrjár vikur en núna gæti fólkið þurft að flýta sér heim.

Ný afbrigði af Covid-19 hafa nefnilega greinst í Portúgal og heimildir The Telegraph herma að breskir ráðamenn hafi ákveðið að taka landið af græna listanum.

Sú breyting mun gilda frá og með þriðjudeginum í næstu viku en gert er ráð fyrir að ákvörðun um þetta verði kynnt síðar í dag. Strax í framhaldinu gæti þá hafist kapphlaup um flugmiða frá Portúgal til Bretlands því tíu daga sóttkví bíður þeirra Breta sem ekki skila sér heim fyrir þriðjudaginn.

Samkvæmt frétt The Telegraph er ekki búist við öðrum breytingum á græna listanum og staða Íslands á honum því ekki í hættu.