Breyta joggingbuxum ferðamanna í gönguskó

Nýrri herferð Íslandsstofu er fylgt úr hlaði með frumsömdu lagi tónlistarmannsins Ásgeirs Orra Ásgeirssonar - Sweatpant Boots – í flutningi rapparans Rögnu Kjartansdóttur sem er einnig þekkt sem Cell 7. Mynd: Íslandsstofa

Notkun á joggingbuxum jókst í heimsfaraldrinum þegar fólk þurfti að halda sig heima og nú eru ferðamenn hvattir til að taka með sér heimsfaraldursklæðin, umbreyta þeim gönguskó og halda á vit ævintýranna á Íslandi.

Skórnir verða handgerðir og fáanlegir í takmörkuðu upplagi gegn því að mæta á staðinn og framvísa flugmiða til Íslands og notuðum joggingbuxum. Skórnir eru unnir í samstarfi við fatahönnuðinn Ýr Þrastardóttur að æví fram kemur í tilkynningu frá Íslandsstofu.

Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseta Íslands, að fékk tækifæri til þess að máta fyrsta parið af joggingbuxnaskónum. „Senn sér fyrir endann á veiruvetri. Senn lýkur hvers kyns hömlum á daglegt líf. Þá getum við ferðast á ný og tekið á móti gestum að utan. Það er mikið gleðiefni að geta aftur boðið ferðalöngum að sækja okkur heim og njóta alls þess sem landið okkar hefur upp á að bjóða,“ segir forsetinn í tilkynningu Íslandsstofu.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, segir þar jafnframt að nú fari spennandi tímar í hönd í íslenskri ferðaþjónustu.

„Við höfum orðið vör við mikinn áhuga ferðamanna á Íslandi að undanförnu. Við höfum haft ákveðið forskot þar sem Ísland var á undan flestum öðrum löndum að létta ferðatakmörkunum, en það er ljóst að mjög hörð samkeppni um ferðamenn er fram undan. Við munum þurfa vinna markvisst að því að ferðamenn velji Ísland sem sinn fyrsta áfangastað eftir heimsfaraldurinn,” segir Sigríður Dögg.

Herferðin stendur í 11 vikur, en megin áhersla verður lögð á Bandaríkin, Kanada, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Danmörku og Svíþjóð.