Ferðaþættir um Suður- og Austurland

Ásthildur Ómarsdóttir og María Finnbogadóttir ferðast um Suðurland á meðan Skúli Bragi Geirdal og Rakel Hinriksdóttir fara um Austurland. Myndir: N4

Sjónvarpsstöðin N4 mun bjóða upp á tvær nýjar þáttaraðir í sumar þar sem umfjöllunarefnið eru ferðalög innanlands. 

Annars vegar er um að ræða ferðaþáttaseríu sem nefnist “Sjá Suðurland”.  Þar ferðast vinkonurnar Ásthildur Ómarsdóttir og María Finnbogadóttir, atvinnuskíðakona, á Go Campers bíl um Suðurland. Ætlunin er að fá adrenalínið til að stíga með því að prófa ýmsa æsilega hluti eins og fjórhjólaakstur, svifdrekaflug, zip-línu brun og annað sem ungu kynslóðinni finnst spennandi að því sem segir í tilkynningu.

Vinkonurnar gerðu svipaða þáttaseríu síðasta sumar sem sýnd var á N4 undir heitinu Vá Vestfirðir.

Hinir ferðaþættirnir fjalla um Austurland og kallast „Uppskrift af góðum degi á Austurlandi“. Þar ferðast dagskrárgerðarfólkið Rakel Hinriksdóttir og Skúli Bragi Geirdal um landsfjórðunginn og kynna sér afþreyingu, matarmenningu og náttúruperlur á svæðinu. Skúli og Rakel hafa áður gert sambærilega þætti um Norðurland.

Fyrsti þáttur af Sjá Suðurland fer í loftið 13. júní og Uppskrift af góðum degi á Austurlandi fer í loftið 23. júní.