Flugið frá Grænhöfðaeyjum að hefjast á ný

MYND: CABO VERDE AIRLINES

Nú í heimsfaraldrinum hefur starfsemi Cabo Verde Airlines að mestu legið niðri en það eru íslenskir fjárfestar sem fara fyrir meirihluta í þessu fyrrum ríkisflugfélagi Grænhöfðaeyja.

Þann 18. júní hefst hins vegar áætlunarflug Cabo Verde Airlines á nýjan leik og til að byrja með verður flogið vikulega frá eyjunni Sal til Lissabon.

Í lok júní fjölgar ferðunum til höfuðborgar Portúgal og þá munu þotur félagsins á ný taka stefnuna á Boston og París en Cabo Verde Airlines hélt úti flugi til fjögurra heimsálfa fyrir Covid-19.

Í tilkynningu er haft eftir Erlendi Svavarssyni, forstjóra flugfélagsins, að það sé ánægjulegt að geta loksins hafið viðspyrnu ferðaþjónustu Grænhöfðaeyja eftir langan og erfiðan heimsfaraldur.

Líkt og Túristi greindi frá í vetur þá fékk fjármálaráðherra Grænhöfðaeyja heimild í mars sl. til að veita Cabo Verde Airlines ríkislán upp á allt að sextán milljónir evra. Sú upphæð jafngildir nærri 2,4 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.