Forstjóri Norwegian rekinn

Jacob Schram er hættur sem forstjóri Norwegian. MYND: NORWEGIAN

Það var í lok nóvember árið 2019 sem Jacob Schram tók við sem forstjóri Norwegian. Hann leisti af hólmi Geir Karlsen, fjármálastjóra, sem hafði leitt félagið tímabundið eftir að Bjørn Kjos, stofnandi Norwegian, lét af störfum.

Ný stjórn Norwegian ákvað hins vegar á fundi sínum í gær að láta Schram fara og fá Karlsen til að taka við sem forstjóri. Og nú ekki tímabundið heldur til lengri tíma.

„Geir Karlsen hefur unnið kraftaverk við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins og komið Norwegian í gang á ný,“ segir Svein Harald Øygard, stjórnarformaður Norwegian og fyrrum seðlabankastjóri Íslands, í tilkynningu.

Þar segir jafnframt að Jacob Schram muni verða félaginu til aðstoðar á uppsagnartímanum en hann nær til næstu níu mánaða.

Enn einu hlutafjárútboðinu í Norwegian lauk nú í vor og í kjölfarið voru gerðar miklar breytingar á stjórn félagsins.