Fyrsta skóflustunga að viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók fyrstu skóflustunguna á gröfu og með skóflu. Við hlið hans eru Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyri, (t.v.) og Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla. MYND: STJÓRNARRÁÐIÐ

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók í gær fyrstu skóflustunguna að 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Það markar upphaf að framkvæmdum við bygginguna en verktakar hefjast nú handa við að undirbúa byggingarreitinn. Verklok eru áætluð í lok árs 2022.

„Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á að efla innanlandsflug og að fjölga fluggáttum inn í landið til að efla ferðaþjónustu um land allt. Það gleður mig að sjá þá miklu áherslu sem ég hef lagt á flugsamgöngur skila sér í raunverulegum framkvæmdum og raunverulegum framförum,“ segir Sigurður Ingi í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Þar er jafnframt haft eftir Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra innanlandsflugvalla hjá Isavia, að það sé gleðiefni að sjá hilla undir löngu tímabærar breytingar á flugstöðinni og í dag er formlega hafið nær tveggja ára framkvæmdatímabil sem verður fljótt að líða.

Í viðbyggingunni verða fríhöfn, veitingastaður og aðstaða fyrir toll og lögreglu. Þegar framkvæmdum við hana lýkur verður ráðist í endurbætur á eldri hluta hússins. Heildarstærð flugstöðvarinnar verður þá 2.700 fermetrar.