Hafa ekki heimild til að upplýsa um umsókn Wow Air

MYND: LONDON STANSTED

Michele Ballarin og viðskiptafélagar hennar keyptu flugrekstrarhandbækur Wow Air úr þrotabúi flugfélagsins í hittifyrra í þeim tilgangi að endurreisa flugfélagið.

Í gær sagði Fréttablaðið hins vegar frá því að ekki hefðu öll þau gögn sem keypt voru skilað sér til kaupendanna. Af þeim ástæðum væri búið að fara fram yfirheyrslur yfir stofnendum Play sem áður unnu hjá Wow.

Þrátt fyrir þennan skort á flugrekstrarhandbókum þá hafa Ballarin og félagar hennar sótt um flugrekstrarleyfi til Samgöngustofu. Frá þessu greinir Fréttablaðið í dag.

Ekki fæst hins vegar staðfesting frá Samgöngustofu um hvort umsóknin frá Wow Air hafi skilað sér inn á borð stofnunarinnar eða ekki. Ástæðan er sú að Samgöngustofa hefur ekki heimild til þess að gefa upp upplýsingar um umsóknir eða stöðu umsókna um flugrekstrarleyfi einstakra aðila. „Samgöngustofa er bundin ríkum trúnaði lögum samkvæmt,“ segir jafnframt í svarinu við fyrirspurn Túrista.

VILTU FÁ FULLAN AÐGANG AÐ TÚRISTA Í SUMAR? NÚ FÆRÐU TVEGGJA MÁNAÐA ÁSKRIFT Á AÐEINS 2000 KR. MEÐ ÞVÍ AÐ NOTA AFSLÁTTARKÓÐAN „SUMAR” ÞEGAR GENGIÐ ER FRÁ PÖNTUN HÉR.
Í KJÖLFARIÐ 2.250 KR. Á MÁNUÐI EN ENGIN BINDING.