Hagnaður strax á næsta ári

Ef áætlanir forráðamanna Play ganga eftir þá mun félagið skila hagnaði upp á fjórar milljónir dollara á næsta ári. Það jafngildir nærri hálfum milljarði kr. á gengi dagsins í dag. Næstu ár á afkoman svo að batna í stórum skrefum og fara uppí rúma fimm milljarða árið 2025. Aftur á móti er reiknað með tapi upp á 1,8 milljarð kr. í ár.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri kynningu sem félagið hefur birt í tengslum við boðað hlutafjárútboð sem hefst 24. júní. Sama dag og félagið fer sína fyrstu áætlunarferð.

Boðnir verða til sölu um 222 milljónir hlutir og gengið er frá 18 krónum á hlut. Til samanburðar var hluturinn seldur á 15,875 krónur í lokuðu hlutafjárúboði Play sem fram fór í apríl sl.

Þátttakendur í útboðinu frá samtals 32 prósent hlut í flugfélaginu og ætlunin er að fá inn nærri fjóra milljarða króna fyrir þetta nýja hlutafé.