Samfélagsmiðlar

Ísland einn af vinsælustu áfangastöðum heims hjá Hilton í N-Ameríku

„Styrkleiki okkar félags felst í fjölbreyttu vöruframboði og flóru af bæði innlendum og erlendum hótelvörumerkjum," segir Hildur Ómarsdóttir framkvæmdastjóri þróunar- og markaðsmála Icelandair hótelanna.

Hildur Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar- og marksmála Icelandair hótelanna, svarar hér spurningum Túrista um samstarfið við Hilton, vinnu við að finna nýtt heiti á hótelkeðjuna og horfurnar næstu mánuði.

Kemur það sér ekki vel að reka hótel undir heiti Hilton nú þegar stór hluti ferðamanna á landinu er bandarískir?
Samstarf við Hilton Worldwide og sala gegnum þeirra kanala er sannarlega að reynast okkur vel núna. Bókanir fyrir sumarið á öllum okkar hótelum, sem eru rekin í sérleyfissamningi Hilton, eru góðar enda er Ísland einn af fimm vinsælustu áfangastöðum heims hjá söluteymi Hilton í Norður-Ameríku. 

Þetta er vissulega jákvæð þróun og góð vísbending um þá aukningu sem gæti orðið á næstu árum. Við áætlum stigvaxandi aukningu viðskipta á næstu fimm árum og að fjöldi gesta árið 2023 verði álíka og við náðum árið 2019. Sá mikli sprettur sem við sjáum í bókunum nú í sumar er tilkominn vegna þess að fáir áfangastaðir í Evrópu eru enn jafn aðgengilegir og Ísland. Af þeim sökum erum við með ákveðið forskot í fjölgun ferðamanna tímabundið að okkar mati.

Öll hótelin okkar njóta góðs af því að við erum með sameiginlega bókunarmiðstöð og söluteymi á aðalskrifstofu félagsins hér heima. Auk þess eru öll hótelin kynnt saman á heimasíðu okkar og þannig er eftirspurnin hámörkuð.

Hótelin á landsbyggðinni njóta því góðs af eftirspurn eftir hótelum í Reykjavík og öfugt. Á sama tíma eru Íslendingar duglegir að bóka gistingu út á landi í sumar og horfurnar því nokkuð góðar fyrir háannatímann, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni.

Er evrópski markaðurinn að taka við sér og hvaða þjóðir þá helst? 
Þýskaland er sterkast frá Evrópu. Frakkland og Skandinavía koma þar næst á eftir. Bretland er einnig að koma sterkt inn þó svo að Bretar hafi öllu jafna verið sterkari markhópur yfir vetrartímann og sótt frekar í sólina á sumrin. Bókanir frá Suður-Evrópu eru ekki komnar í sambærilegt horf og venja var á þessum tíma árs fyrir faraldur. Bæði Ítalir og Spánverjar hafa öllu jafna komið sterkir inn seinni part sumars og gjarnan bókað með styttri fyrirvara en aðrar þjóðir þannig að ekki er öll von úti um aukningu bókana frá þeim.

Berast pantanir orðið með lengri fyrirvara? 
Almennt eru einstaklingar að bóka með styttri fyrirvara en áður, en við erum á sama tíma með góða aukningu fyrirspurna frá ráðstefnu- og hvataferðahópum lengra fram í tímann.

Eru að eiga sér stað einhverja stóra breytingar á ferðamynstrinu
Dvalartími gesta er að lengjast og bókanir berast eins og áður sagði með mun styttri fyrirvara. Einstaklingsbókanir eru fleiri en hópabókanir fyrir sumarið líkt og við gerðum ráð fyrir. Bókanir berast öllu jafna í miklu magni frá Þýskalandi yfir vetur fyrir næsta sumar, en Ísland hefur verið mjög vinsæll áfangastaður þjóðverja yfir sumartímann til fjölda ára. Þeir fara í lengri hringferðir um landið og eru okkur mikilvægir viðskiptavinir um allt land. Það er því ánægjulegt að sjá að við verðum ekki af viðskiptum Þjóðverja í ár sökum faraldursins því þeir eru að bóka ferðir hingað til lands fyrir sumarið með nokkurra daga eða vikna fyrirvara.

Hvernig lítur haustið og veturinn út núna miðað við sama tíma árið 2019? Er verðið gjörólíkt?
Í haust og vetur erum við nokkuð á pari við 2019 í bókunum frá einstaklingum en höfum ekki náð sambærilegum fjölda hópabókana enn.

Verðið er álíka og fyrri ár, bæði fyrir einstaklinga og hópa. Við höfum hinsvegar lagt mikla áherslu á að bjóða góð gistitilboð á innlendum markaði í sumar líkt og á síðasta ári. Þá sérstaklega hagstæð kjör á fimm og átta nóttum og ánægjulegt hversu margir Íslendingar hafa nýtt sér þessi sérkjör. Einnig höfum við séð góða aukningu í bókunum smærri hópa yfir veturinn. Hlaupa-, gönguskíða-, jóga-, hjólahópar og fleiri hafa sótt okkur í auknum mæli heim á landsbyggðinni en í Reykjavík hefur t.d.verið góð aukning í fjölda gesta í detox dvöl.

Við Íslendingar erum einfaldlega ferðaglöð þjóð og það er óskandi að þessi aukning á ferðalögum innanlands, með smá dekri í mat og drykk á góðum hótelum, sé komin til að vera. Þrátt fyrir að utanlandsferðir hrökkvi vonandi einnig í gang í meira mæli.

Er búið að finna nýtt heiti á hótelin sem kemur þá í stað Icelandair og kemur til greina að þau verði líka kennd við erlendar keðjur?
Endurmörkun Icelandair hótelanna er í vinnslu um þessar mundir. Það kemur allt til greina en stefnan er þó tekin á að halda sérstöðu Icelandair hótelanna sem sterku íslensku vörumerki líkt og áður. Styrkleiki okkar félags felst í fjölbreyttu vöruframboði og flóru af bæði innlendum og erlendum hótelvörumerkjum.

Við byggjum innviði okkar á traustum grunni og höfum alltaf haft það að leiðarljósi að ganga ekki að viðskiptunum sem gefnum. Því þrátt fyrir mikla aukningu ferðamanna til landsins undanfarin ár þá hefur hún aldrei verið sjálfgefin og við verið meðvituð um það. 

Góður árangur í hótelrekstri felst í því að vera stöðugt vakandi fyrir þörfum gestanna og þróun í þjónustu hótela og veitingastaða. Það er mikilvægt að nálgast það verkefni líkt og aðra ferðaþjónustu, af ákveðinni auðmýkt og skilningi á því að viðskiptaumhverfið er síbreytilegt og mjög háð ytri aðstæðum. Það hefur undanfarið rúmt ár svo sannarlega sýnt okkur. Við hjá Icelandair Hótelum erum full bjartsýni fyrir næstu misseri, en meðvituð um að vel þarf að halda á spöðunum í þeirri uppbyggingavinnu sem er framundan og að hótelgestir eru ekki tryggðir fyrr en í raun komnir inn í hús.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …