Leggja Icelandair til nýtt hlutafé

Frá vinstri: Matthew Evans, framkvæmdastjóri Bain Capital Credit, Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. Myndir: Bain Capital Credit og Icelandair Group

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Bain Capital hefur gert bindandi áskriftarsamning um kaup á 16,6 prósent hlut í Icelandair Group. Um er að ræða nýja hluti og fyrir þá greiðir sjóðurinn 8,1 milljarð króna. Þetta kemur fram í tilkynningu. Til samanburðar fékk Icelandair inn 23 milljarða króna í hlutafjárútboði sínu sl. haust.

Fjárfesting Bain Capital Credit er gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar því núverandi hluthafar verða að falla frá forgangsrétti að nýjum hlutum í flugfélaginu. Haldinn verður fundur með hluthöfum þann 23. júlí nk.

Gangi viðskiptin í gegn fær Bain Capital fulltrúa í stjórn Icelandair og mun þá Úlfar Steindórsson stíga til hliðar sem stjórnarmaður í félaginu en hann hefur stjórnarformaður frá árinu 2017.

Til viðbótar við hið nýja hlutafé þá fær Bain Capital áskriftarréttindi fyrir hlutum sem samsvara fjórðungi af heildarfjölda þeirra nýju hluta sem gefnir verða út.

Í tilkynningu Icelandair segir að hlutafjáraukningin mun styrkja fjárhagsstöðu Icelandair Group enn frekar og auka fjárhagslegt bolmagn félagsins til að nýta þau tækifæri sem munu skapast í þeirri fordæmalausu stöðu sem nú er uppi á flugmörkuðum.

„Það er mikið gleðiefni að bjóða Bain Capital velkomin í sterkan og fjölbreyttan hluthafahóp okkar. Við erum ánægð með að fá í hópinn leiðandi fjárfesti á heimsvísu með mikla þekkingu á fluggeiranum. Samkomulagið er auk þess mikilvæg viðurkenning á því ötula starfi sem starfsfólk Icelandair hefur unnið til að tryggja bjarta framtíð félagsins. Við hlökkum til samstarfsins og að nýta þau miklu tækifæri sem við sjáum í viðskiptalíkani Icelandair eftir heimsfaraldurinn,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Þar er jafnframt haft eftir Matthew Evans, framkvæmdastjóra Bain Capital Credit, að þar á bæ ríki spenna fyrir því að bæta Icelandair Group í fjölbreytt eignasafn sjóðsins í flugtengdri starfsemi.

„Þó líklegt sé að það taki ferðaþjónustu í heiminum nokkurn tíma að ná fullum styrk á ný, deilum við þeirri trú með stjórnendum Icelandair að viðskiptalíkan félagsins sé mjög samkeppnishæft til lengri tíma og að félagið hafi rekstrarsögu sem setur það í kjörstöðu til þess að nýta sér þau tækifæri sem verða til nú þegar heimsfaraldurinn er í rénun. Við erum sannfærð um að víðtæk reynsla okkar úr fluggeiranum og virðisaukandi nálgun muni styðja við vöxt Icelandair til hagsbóta fyrir alla hluthafa,“ segir Evans.