Margir vilja út til ættingja og vina

Það eru þúsundir Íslendinga búsettir í Kaupmannahöfn og því vafalítið margir sem munu fljúga frá Íslandi til Danmerkur á næstunni til að hitta fólkið sitt. Mynd: Martin Heiberg / Unsplash

Árlega spyr Ferðamálastofa hvers konar ferðalög fólk geri ráð fyrir að fara í það sem eftir lifir árs og þegar kemur að reisum út fyrir landsteinana þá nefna flestir borgarferðir. Í öðru sæti koma svo sólarlandaferðir og heimsóknir til vina og ættingja í því þriðja. Fótbolta-, golf- og skíðaferðir koma svo í sætunum á eftir ásamt vinnuferðum.

Og nú þegar ferðalög milli landa eru að verða einfaldari þá sýna niðurstöður nýjustu könnunar Ferðamálastofu að mun fleiri setja í forgang að komast út til að hitta fólkið sitt í stað þess að fara í hefðbundna sólarlandaferð.

Borgarferðir eru þó ennþá efstar á blaði þó helmingi færri horfi til þess háttar ferðalaga í dag en fyrir tveimur árum síðan eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Samkvæmt tölum Þjóðskrár þá bjuggu um 45 þúsund Íslendingar í útlöndum árið 2018 og þar af um þrjátíu þúsund í Skandinavíu. Það gæti því farið svo að ásókn Íslendinga í flug til Kaupmannahafnar, Billund, Óslóar og Stokkhólms verði töluverð í sumar og haust. Aftur á móti er ekkert flug í boði héðan til borga eins og Gautaborgar og Bergen þar sem margir Íslendingar búa.

VILTU FÁ FULLAN AÐGANG AÐ TÚRISTA Í SUMAR? NÚ FÆRÐU TVEGGJA MÁNAÐA ÁSKRIFT Á AÐEINS 2000 KR. MEÐ ÞVÍ AÐ NOTA AFSLÁTTARKÓÐAN „SUMAR” ÞEGAR GENGIÐ ER FRÁ PÖNTUN HÉR.
Í KJÖLFARIÐ 2.250 KR. Á MÁNUÐI EN ENGIN BINDING.