Mikill meirihluti kröfuhafa veitti samþykki sitt

MYND: ARCTIC ADVENTURES

Greiðsluskjóli Straumhvarfs ehf., rekstrarfélags Arctic Adventures, er lokið en meira en níutíu prósent kröfuhafa samþykktu samningsboð félagsins um uppgjör á skuldum.

Þar fengu almennir kröfuhafar tvo valkosti. Annars vegar að gefa eftir fimmtung skuldarinnar gegn greiðslu nú um mánaðamótin eða fá endurgreitt í fjórum afborgunum fram til 1. apríl á næsta ári.

Í tilkynningu sem Straumhvarf sendi kröfuhöfum í gær segir að greiðsluskjólinu sé nú lokið en ár er liðið síðan félagið fékk heimild til að nýta sér úrræði um tímabundið greiðsluskjól.

Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins og sérhæfir sig í afþreyingu fyrir ferðafólk. Undir lok árs 2019 var gengið frá samruna fyrirtækisins við Into the Glacier og það ár nam hagnaður Straumhvarfs 482 milljónum króna.