Nær öll Ítalía orðin hvít

Í sumar verður hægt að fljúga beint frá Keflavíkurflugvelli til Verona,. Mynd: Alessandro Carrarini / Unsplash

Frá og með gærdeginum eru öll héruð Ítalíu flokkuð sem hvít af þarlendum sóttvarnaryfirvöldum nema Valle d’Aosta í norðvesturhluta sem verður gult svæði í eina viku í viðbót. Flokkunin byggir á útbreiðslu Covid-19 í hverju héraði fyrir sig.

Fólksferðir eru nú heimilar á milli ólíkra hluta Ítalíu en áfram er skylda að nota grímur í almennu rými og ferðamenn verða að sýna fram á nýlega neikvæða niðurstöðu úr smitprófi við komuna til landsins.

Gert er ráð fyrir að sú kvöð falli niður í byrjun júlí þegar svokallaður grænn passi Evrópusambandsins verður tekin í notkun. Tilgangurinn með innleiðingu hans er nefnilega að einfalda ferðir fólks innan EES-svæðisins.

Nú í sumar verður töluvert framboð af flugi milli Íslands og Ítalíu. Icelandair og Wizz Air fljúga til Mílanó og það síðarnefnda hefur flug til Rómar í júlí. Til viðbótar bjóða heimsferðir upp á reglulegar ferðir til Verona.