Spánverjar gera ekki lengur kröfu um PCR-próf

Frá Alicante en þangað bjóða stærstu ferðaskrifstofur landsins upp á ferðir í allt sumar. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Þeir sem geta sýnt fram á að þeir hafi verið að fullu bólusettir fyrir Covid-19 eða náð sér af veikindum, sem rekja má til veirunnar, þurfa ekki lengur að sýna fram á neikvætt PCR-próf við komuna til landsins. Það sama á við þegar fólk innritar sig á hótel.

Aðeins óbólusettir ferðamenn sem koma frá löndum sem skilgreind eru rauð verða að sýna PCR-próf þegar farið er yfir spænsk landamæri. Ísland telst ekki til rauðra landa hjá Spánverjum.

Spænsk stjórnvöld ætlast hins vegar til að allir þeir sem ferðast til landsins hafi fyllt út sérstakt rafrænt eyðublað fyrir komuna og hafi meðferðis vottorð um fulla bólusetningu eða mótefni.

Þessar tilslakanir við spænsk landamæri komu til framkvæmda nú í sumarbyrjun í von um að laða til landsins fleiri ferðamenn. Árið 2019 stóð ferðaþjónusta undir 12 prósentum af þjóðarframleiðslu Spánar og því mikið í húfi fyrir landið að fá þangað túrista á nýjan leik.