Þriðji hver ætlar að „elta veðrið“

Flestir þeirra sem ætla að ferðast innanlands í sumar gera ráð fyrir að kaupa sér gistingu á hóteli. Þeir sem halda til Akureyrar hafa úr úrvali gististaða að velja. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Um níu af hverjum tíu landsmönnum ætla í ferðalag innanlands í sumar þar sem gist er eina nótt eða lengur samkvæmt nýrri könnun Ferðamálastofu. Tæplega helmingur gerir ráð fyrir að gista á hóteli.

Litlu færri sjá fram á að gista hjá ættingjum og vinum eða um fjórir af hverjum tíu. Sumarbústaðir og tjaldsvæði njóta líka vinsælda.

Þegar spurt er hvert ferðinni er heitið þá segja sex af hverjum tíu að sumarbústaðaferð sé á dagskrá. Heimsókn til vina og ættingja er líka ofarlega á blaði en þriðjungur segist einfaldlega ætla að „elta veðrið“.

Ef ekki rætist úr veðrinu þá er spurning hvort færri Íslendingar fari í raun á flakk innanlands og fljúgi frekar til útlanda. Alla vega þeir fullbólusettu.