Til Alicante í allan vetur

Frá Alicante. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Auk tveggja brottfara í viku hverri til Tenerife allt árið um kring þá ætlar ferðaskrifstofan Heimsferðir að hafa á boðstólum vikulegar ferðir til Alicante í vetur. En í síðustu viku var gengið frá samningi við ítalska flugfélagið Neos um flug til allra áfangastaða ferðaskrifstofunnar fram á næsta ár.

Aðspurður um eftirspurn fyrir vetrarflugi til Alicante þá segir Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, að ákveðið hafi verið að prófa að þessu sinni og bendir á að Norwegian hafi haldið úti ferðum milli Alicante og Íslands þarsíðasta vetur.

Hjá Heimsferðum líkt og fleiri ferðaskrifstofum hér á landi þá hefur áherslan verið á sólarlandaferðir til Spánar. Tómas segir skýringuna á því einfaldlega vera þá að Íslendingar vilji helst til Alicante og Tenerife.

„Það er nokkuð strembið að koma nýjum áfangastöðum á kortið,“ segir Tómas en segir nýjungar á þessu sviði alltaf til skoðunar.

Sumarprógramm Heimsferða gerir ráð fyrir beinu flugi til Krítar, Verona, Malaga, Alicante og Tenerife. Í haust bætast við áfangastaðir eins og Sikiley, Madeira, Ljubljana, Lissabon, Porto og Kanarí. Einnig verða í boði ferðir frá Akureyri til Tenerife í haust og Edinborgar ásamt borgarferð frá Egilsstöðum til Glasgow.