Tvö af hverjum þremur sætum skipuð farþegum

MYND: WIZZ AIR

Það voru 833 þúsund farþegar sem nýttu sér áætlunarflug ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air í maí. Það er skiljanlega viðbót frá maí í fyrra þegar flugsamgöngur voru ennþá takmarkaðri en þær eru núna.

Að jafnaði var sætanýtingin í ferðum félagsins 66 prósent samkvæmt farþegatölum sem flugfélagið birti fyrr í dag.

Þar kemur jafnframt fram að losun gróðurhúsalofttegunda á hvern farþega minnkaði um nærri tíund frá því í maí í fyrra.

Wizz Air hefur verið umsvifamesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli um langt skeið. Sumaráætlun félagsins gerir ráð fyrir ferðum hingað til lands frá tólf evrópskum flugvöllum.

Þar á meðal frá Róm en ekkert beint flug hefur verið í boði milli Íslands og höfuðborgar Ítalíu síðan Norwegian lagði niður þá flugleið.