170 farþegar í fyrsta fluginu til Kaupmannahafnar

Mynd: Play

Fyrsta áætlunarferð Play til Kaupmannahafnar var farin í morgun og von er á þotunni til flugvallarins við Kastrup klukkan tíu mínutur yfir tólf að staðartíma.

Samtals voru 170 farþegar bókaðir í þessa jómfrúarferð Play til dönsku höfuðborgarinnar samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. Sæti eru fyrir 192 farþega í þotum félagsins.

Ferð Play var ekki sú eina frá Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar í dag því Icelandair býður upp á tvær brottfarir til borgarinnar í dag og SAS eina.

Farþegar á leið milli Íslands og höfuðborgar Danmerkur hafa því hér eftir úr ferðum þriggja flugfélaga að velja.