2 milljónir ferðamanna á næsta ári

Ferðamenn við Námaskarð. Mynd: Iceland.is og Katla DMI.

Ferðamálastofa gerir ráð fyrir að um 890 þúsund erlendir ferðamenn muni sækja landið heim í ár og á næsta ári verði fjöldinn svipaður og hér var 2019, eða um 1.950 þúsund. Þetta var meðal þess sem fram kom á málstofu sem Ferðamálastofa tók þátt í hjá Háskólanum á Hólum í liðinni viku.  

Erindi Ferðamálastofu fjallaði um framtíð og horfur í ferðaþjónustu á Íslandi en stofnunin hefur fylgst náið með því hvernig helstu mælikvarðar hafa fallið frá því í mars í fyrra og hvernig vöxtur í þeim sömu mælikvörðum hefur tekið vel við sér á undanförnum mánuðum.  

Í því samhengi má rifja upp að greiningadeildir bankanna og Seðlabankinn gera ráð fyrir á bilinu 600 til 800 þúsund ferðamönnum. Aftur á móti er spá Isavia svartsýnni því ef hún rætist þá munu aðeins 400 þúsund ferðamenn heimsækja Ísland í ár.

Afkastagetan til staðar

Spá Ferðamálastofu byggir á fjölda mælikvarða og atburðum, t.a.m. bókunarstöðu hótela, hraða í bólusetningum, framboði gistingar, afléttingum takmarkana hérlendis og erlendis, sæta og verði á flugi, verð á gistingu, ofl. 

„Framboð af gistingu og afþreyingu er til staðar í dag og er ekki ástæða til að ætla annað en að reynt verði að  fullnýta þau aðföng sem eru til staðar. Eftirspurnarhliðin á ferðaþjónustu hefur vaxið þétt undanfarið og mun að öllum líkindum halda þeim vexti áfram,“ segir m.a. í útskýringum Ferðamálastofu á spá sinni um 890 þúsund ferðamenn í ár og 2 milljónum á því næsta.