3.000 krónur fyrir flugmiða til Rómar á föstudaginn

Frá og með þessari viku verður flogið þrisvar í viku milli Íslands og Rómar. Mynd: christopher Czermak / Unsplash

Áætlunarflug Wizz Air milli Íslands og Rómar hefst á föstudagskvöldið og af farmiðaverðinu að dæma þá er nóg af lausum sætum. Farmiðinn kostar nefnilega rétt 19,99 evrur eða 2.935 kr.

Sá sem vill taka með sér hefðbundinn handfarangur eða innrita tösku verður þó að borga meira.

Fargjöldin aðra leiðina segja þó bara hálfa söguna, alla vega fyrir þá sem ætlar sér að koma heim aftur. Því eins og staðan er í dag kosta ódýrustu miðarnir frá Róm til Íslands, nú í júlí, tæpar fimmtán þúsund krónur.

Ítalir sem ætla að nýta þessar nýju áætlunarferðir til Keflavíkurflugvallar þurfa þó að borga töluvert meira en 18 þúsund krónur fyrir farmiða báðar leiðir eða að lágmarki um 30 þúsund krónur.

Nú í vetur áformar Wizz Air að fljúga til Íslands frá þremur ítölskum borgum. Þar með ætti kortavelta ferðamanna frá Ítalíu að aukast um alla vega einn milljarð króna næsta vetur eins og Túristi hefur áður rakið.