Ætla að skylda flugfélög til að borga fyrir seinkun á farangri

Mynd: Gerrie van der Walt / Unsplash

Farþegar í alþjóðaflugi eiga rétt á að flugfélög greiði þeim umsvifalaust bætur ef farangur þeirra hefur ekki skilað sér 25 klukkutímum eftir komu á áfangastað. Þetta er meðal breytinga sem Samgöngustofnun Bandaríkjanna mun vera með í vinnslu samkvæmt frétt Bloomberg.

Réttur farþegar til endurgreiðslu verður einnig gerður skýrari í þeim tilvikum þar sem fólk fær ekki það sem það hefur greitt aukalega fyrir. Til að mynda fyrir sérstakt sæti í farþegarýminu, þráðlaust netsamband eða aðgang að afþreyingarefni.

Samkvæmt frétt Bloomberg höfðu samgönguyfirvöld vestanhafs haft þessar breytingar á teikniborðinu í lok valdatíðar Barack Obama í Hvíta húsinu. Eitt af fyrstu verkum eftirmanns hans, Donald J. Trump, var hins vegar að slá þær út af borðinu og þá ráðagerð studdu forsvarsmenn flugfélaga.