Ætla ekki að opna bandarísk landamæri í bráð

Það verður bið eftir því að Íslendingar fá á ný að fljúga til New York. Mynd: Hector Argüello / Unsplash

Eingöngu íbúar Bandaríkjanna geta nýtt sér þær tólf áætlunarferðir sem eru á dagskrá Keflavíkurflugvallar til bandarískra borga í dag. Ennþá er erlendum ferðamönnum nefnilega ekki hleypt yfir bandarísk landamæri.

Og á því verður ekki breyting á næstunni vegna útbreiðslu Delta-afbrigðis kórónuveirunnar vestanhafs og annars staðar í heiminum. Þetta kom fram í máli Jen Psaki, talsmanns Hvíta hússins, á blaðamannafundi í gær.

Hún bætti því við að ekki væri hægt að segja til um hvenær lokun landamæranna yrði endurskoðuð. Ákvörðun um slíkt byggi meðal annars á því hversu vel gengur að bólusetja íbúa Bandaríkjanna samkvæmt frétt NY Times.

Nú eru sextán mánuðir síðan stjórn Donald J. Trump, fyrrum forseta Bandaríkjanna, stöðvaði ferðalög íbúa íbúa flestra erlendra ríkja til Bandaríkjanna. Þar á meðal þeirra sem koma frá Evrópu.

Forsvarsfólk bandaríska ferðageirans og evrópskir ráðamenn hafa að undanförnu lagt pressu á núverandi ráðamenn í Hvíta húsinu að hleypa Evrópubúum á ný til Bandaríkjanna. Og það leit út fyrir að Bandaríkjaforseti ætlaði að verða við því eftir fund sinn með Angela Markel, kanslara Þýskalands, fyrr í sumar.

Nú er hins vegar ljóst að ekkert verður af því í bráð. Áfram munu því Íslendingar ekki geta flogið vestur um haf en stór hluti af umsvifum Icelandair byggir einmitt á því að fljúga fólki á milli Evrópu og Bandaríkjanna.