Bara þeir sem eru bólusettir í Bretlandi sleppa við sóttkví

Búist er við að tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum við bresk landamæri þann 19. júlí muni auka mjög umferðina um breska flugvelli. MYND: HEATHROW AIRPORT

Tíu daga sóttkví bíður allra þeirra sem ferðast til Bretlands eftir að hafa dvalið í landi sem bresk yfirvöld flokka sem appelsínugul. Þar á meðal eru vinsælir áfangastaðir við Miðjarðarhafið eins og Spánn, Frakkland, Ítalía og Grikkland.

Samgönguráðherra Bretlands tilkynnti hins vegar fyrr í dag að frá og með 19. júlí sleppi fólk við sóttkví við heimkomu en þó aðeins ef viðkomandi hafi verið bólusettur af breskum heilbrigðisyfirvöldum. Erlendir ferðamenn eða Bretar búsettir í útlöndum komast hins vegar ekki hjá því að fara í sóttkví ef þeir koma frá appelsínugulum löndum.

Ísland er eitt fárra ríkja sem Bretar flokka sem græn og þá sleppa bæði Bretar og Íslendingar við sóttkví við komuna til Bretlands.

Óhætt er að segja að breski ferðageirinn hafi tekið þessum boðuðu tilslökunum með nokkrum fyrirvörum. Flestir gera ráð fyrir að fjöldi bólusettra Breta muni nýta sér þetta nýja frelsi til ferðalaga og bókanir á sólarlandaferðum muni aukast verulega eins og fram kemur í frétt The Telegraph.

Á hinn bóginn heyrist gagnrýni úr röðum stjórnenda flugfélaga og ferðaskrifstofa sem segja það skjóta skökku við að bresk stjórnvöld vilji ekki hleypa inn í landið bólusettum erlendum ferðamönnum.