Biden boðar endurskoðun á reglum um ferðir Evrópubúa

Það gæti styst í að Íslendingum verði á ný heimilt að fljúga frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna. Mynd: Isavia

Allt frá upphafi covid-19 heimsfaraldursins hafa bandarísk stjórnvöld ekki heimilað ferðir annarra en íbúa Bandaríkjanna til landsins. Nú eru hins vegar til skoðunar tilslakanir við bandarísk landamæri samkvæmt því sem fram kom í máli Joe Biden Bandaríkjaforseta á fundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í gær.

Forsetinn bætti því við að frekari upplýsingar um stefnubreytinguna yrðu kynntar á næstu dögum samkvæmt frétt The Telegraph.

Bólusettir Bandaríkjamenn hafa fengið að ferðast til Evrópu frá og með nýliðnu vori og hafa þeir meðal annars fjölmennt hingað til lands.

Íslendingar komast hins vegar ekki til Bandaríkjanna og því eru það að langmestu leyti bandarískir ferðamenn sem sitja í þotunum sem fljúga milli Keflavíkurflugvallar og bandarískra flugvalla þessa dagana.