Engar breytingar á evrópska litakóðunarkerfinu í pípunum

Nú er Ísland ekki lengur grænt á korti Evrópsku sóttvarnarstofnunarinnar. MYND: ECDC

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, sagði í fréttum RÚV í vikunni að hún vonaðist til að fljótlega verði hætt að horfa til fjölda smita þegar lönd eru flokkuð rauð, gul eða græn af Evrópsku sóttvarnarstofnuninni. Aðrir mælikvarðar yrðu notaðir í staðinn og meðal annars horft til þess smitrakningar og fjölda skimana.

Þetta sagði ráðherrann í tilefni af því að Ísland er ekki lengur grænt á korti sóttvarnarstofnunnar Evrópu.

Endurskoðun á þessu litakerfi ESB eru þó ekki til skoðunar eins og er samkvæmt svari frá talsmanni Evrópusambandsins. En það eru aðildarlönd Evrópsku sóttvarnarstofnunarinnar, þar á meðal Ísland, sem koma sér saman um hvernig flokkunin er. Það eru því ekki sérfræðingar sóttvarnarstofnunarinnar sem leggja línurnar.

Í svari ESB, við fyrirspurnum Túrista, er jafnframt bent á að um miðjan júní var upplýsingagjöf sóttvarnarstofnunar Evrópu breytt. Núna er til að mynda gefið út kort sem sýnir hversu hátt hlutfall íbúa í hverju landi fyrir sig hefur verið skimað fyrir veirunni síðustu tvær vikur. Þar er Ísland í efsta flokki eins og sjá má.