Fáir ferðamenn þurfa að breyta brottför

Fosshótel Reykjavík er eitt þriggja sóttvarnarhótela á höfuðborgarsvæðinu. Mynd: Íslandshótel

Þeim fjölgar hratt sem verða að fara í einangrun eða sóttkví hér á landi. Og í þeim hópi eru líka erlendir ferðamenn. Engu að síður virðist það ekki vera stór hópur sem neyðist til að breyta flugmiðum vegna þess háttar aðstæðna.

„Það hefur verið lítið um að fólk seinki brottför frá landinu. Það hefur hins vegar komið upp og eins og verið hefur í gegnum faraldurinn bjóðum við viðskiptavinum okkar mikinn sveigjanleika hvað varðar breytingar á miðum án breytingargjalds,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. En Icelandair stendur undir rúmlega helmingi ferða frá Keflavíkurflugvelli þessa dagana.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segist heldur ekki sjá mikið um beiðnir um breytingar.

„Vissulega eru einhverjir farþegar að nýta sér sveigjanlega skilmála og breyta miðum, það er viðbúið og auðvitað einn af sölupunktunum sem við höfum verið að keyra á í okkar markaðssetningu, að það sé auðvelt að breyta vegna Covid-19,“ segir Birgir. Hann bætir því við að þegar fólk breytir farmiðum þá komi ekki fram ástæður breytinganna og því geti veri að í einhverjum tilvikum sé fólk komið í einangrun.