Farþegar með íslenska kennitölu beðnir um að fara í skimun

Allir farþegar sem koma til landsins verða frá og með mánudeginum að hafa meðferðis PCR próf eða hraðpróf vegna Covid-19.

Frá og með mánudeginum 26. júlí verða allir sem koma til landsins að framvísa neikvæðu Covid-19 prófi. Bæði PCR og hraðpróf verða tekin gild svo lengi sem þau hafa verið tekin í mesta lagi 72 klukkutímum fyrir flugið til Íslands.

Til viðbótar er þeim tilmælum beint til farþega sem eru með íslenska kennitölu að þeir fari í skimun sólarhring eftir að komið er til landsins. Samskonar tilmæli voru nýverið tekin upp í Svíþjóð.

Samkvæmt vef Stjórnarráðsins verða börn fædd 2005 eða síðar áfram undanþegin öllum aðgerðum á landamærum. Og þeir óbólusettu verða áfram að fara í skimun á flugvellinum og svo í fimm daga sóttkví.