Ferðaþjónustan var í erfiðri stöðu fyrir heimsfaraldur

Til Íslands komu rétt um hálf milljón ferðamanna í fyrra. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Því var spáð að um tvær milljónir ferðamanna myndu heimsækja Ísland í fyrra. Heimsfaraldurinn gerði hins vegar ferðalög milli landa nær ómöguleg stóran hluta ársins og hingað komu því aðeins 479 þúsund túristar.

Af þeim sökum má áætla að tapaður virðisauki eða verðmætasköpun ferðaþjónustunnar í fyrra hafi numið um 149 milljörðum króna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöð ferðamála, sem unnin var fyrir Ferðamálastofu.

Þar segir jafnframt að virðisauki á hvern ferðamann hafi dregist saman síðastliðinn áratug.

„Tímabilið 2010 til 2016 var vöxtur í virðisauka ferðaþjónustunnar en á honum hægðist eftir 2016. Virðisauki og hagnaður á hvern ferðamann hafa dregist saman á ári hverju allt frá 2010 og til 2017 og 2018.  Ljóst er því að ferðaþjónustan var rekstrarlega í erfiðri stöðu og illa í stakk búin að takast á við niðursveiflu í hagkerfinu, hvað þá þann mikla samdrátt í eftirspurn sem varð í kjölfar COVID-19,“ segir í skýrslunni.